„Engin pressa á okkur“

Ivan Toney er öflugur framherji.
Ivan Toney er öflugur framherji. AFP

Ivan Toney, hinn mikli markaskorari í röðum nýliða Brentford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir leikmenn liðsins átta sig á því að stór munur sé á að spila í deildinni samanborið við B-deildina, en þeir hræðist ekki pressuna sem muni fylgja því.

„Ég tel að það sé í raun og veru engin pressa á okkur. Fólk veltir því fyrir sér hvernig við munum höndla pressuna sem fylgir því að spila í úrvalsdeildinni.

Frá okkar bæjardyrum séð er það eðlilegt að vera undir pressu og við förum í hvern leik með gott hugarfar og jákvæðni að leiðarljósi,“ sagði Toney í samtali við Sky Sports.

Hann hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarið. Eftir að hafa farið á kostum í ensku C-deildinni í tvö tímabil í röð með Peterborough United var hann fenginn til Brentford fyrir síðasta tímabil.

Þar hélt hann uppteknum hætti í B-deildinni og skoraði 31 deildarmark í 45 leikjum og tvö mörk í þremur umspilsleikjum, þar á meðal í úrslitaleik umspilsins, 2:0 sigri gegn Swansea City. Fróðlegt verður því að sjá hvernig hinn 25 ára gamli framherji spjarar sig í úrvalsdeildinni.

Toney sagði liðið í það minnsta hvergi bangið. „Þetta er úrvalsdeildin og við vitum hverju við megum eiga von á, leikjum gegn þeim bestu í raun og veru.

Við getum ekki beðið eftir því að fá að spreyta okkur en ekkert breytist þannig lagað, við vitum að við þurfum að koma leik okkar upp á næsta stig og gera okkar besta í hverjum leik. Það verður ekki auðvelt en við getum ekki beðið eftir þessari áskorun.“

mbl.is