Eru þau að bíða eftir sjálfsvígi afreksknattspyrnumanns?

Anton Ferdinand tekur í spaðann á Rio bróður sínum í …
Anton Ferdinand tekur í spaðann á Rio bróður sínum í leik QPR gegn Manchester United á sínum tíma. AFP

Anton Ferdinand, fyrrverandi knattspyrnumaður, segir að samfélagsmiðlafyrirtæki verði að fara að taka almennilega á kynþáttaníði sem fær að grassera á miðlum þeirra ef ekki eigi illa að fara.

Ferdinand var einn fjölda hörundsdökkra fyrrverandi leikmanna sem hefur orðið fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum sem sat fyrir svörum nefndar um innanríkismál í Bretlandi, en nefnd þessi er að fara ofan í kjölinn á skaðlegri hegðun á veraldarvefnum þar í landi.

„Samfélagsmiðlar eru eins og eiturlyf. Þeir eru hannaðir með það fyrir augum að gera þig háðan. Þú getur ekki hætt þegar þú byrjar að skruna niður á þessum miðlum.

Þar kemur til geðræni vandinn að geta ekki hætt. Áhyggjur mínar eru þær og ég velti því fyrir mér, hverju eru samfélagsmiðlafyrirtækin að bíða eftir?“ velti Ferdinand fyrir sér.

Hann bætti því við að fyrirtækin mættu engan tíma missa. Hörundsdökkir leikmenn á Bretlandseyjum hafa mjög reglulega orðið fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum á undanförnum árum.

„Eru þau að bíða eftir því að knattspyrnumaður á hæsta stigi drepi sig, eða að einhver meðlimur þeirra eigin fjölskyldu fremji sjálfsvíg? Eru þau að bíða eftir því? Ef svo er er það um seinan,“ sagði Ferdinand.

Þá sagði hann að þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar þessara fyrirtækja þar sem þau lofa bót og betrun hafi raunverulega aðgerðir ekki fylgt í kjölfar yfirlýsinganna í nægilega miklum mæli.

„Þegar allt kemur til alls snýst þetta um það hvort þau vilji raunverulegu breyta einhverju. Hingað til hafa þau sagst vilja gera það en aðgerðirnar þeirra segja aðra sögu.“

mbl.is