Mendy hafnað um lausn gegn tryggingu  

Benjamin Mendy verður áfram í fangelsi.
Benjamin Mendy verður áfram í fangelsi. AFP

Benjamin Mendy, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, mun áfram dvelja í fangelsi eftir að beiðni lögfræðinga hans um lausn þaðan gegn tryggingu var hafnað í þriðja sinn. Mendy er ákærður fyrir nauðganir og kynferðisofbeldi gagnvart þremur konum.

Þann 26. ágúst síðastliðinn var hann ákærður fyrir fjórar nauðganir og eitt tilfelli af kynferðisofbeldi.

Honum er gefið að sök að hafa ráðist á þrjár konur á heimili sínu í Cheshire á milli október 2020 og ágúst á þessu ári.

Mendy hefur setið inni undanfarnar sjö vikur og sem áður segir hafnaði dómari í Chester beiðni lögfræðiteymis hans um lausn gegn tryggingu í þriðja skipti í morgun.

Hann á að mæta fyrir rétt í Chester 24. janúar næstkomandi.

mbl.is