Arsenal ekki í vandræðum með Villa

Emile Smith Rowe fagnar marki sínu í kvöld.
Emile Smith Rowe fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Arsenal vann góðan 3:1 sigur á heimavelli gegn Aston Villa í fyrsta leik 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Um miðjan fyrri hálfleikinn kom Thomas Partey heimamönnum yfir með skalla eftir hornspyrnu Emile Smith Rowe frá vinstri.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Arsenal svo dæmda vítaspyrnu eftir að Craig Pawson hafði ráðfært sig við VAR-skjáinn, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Matt Targett hefði fellt Alexandre Lacazette innan vítateigs.

Pierre-Emerick Aubameyang steig á vítapunktinn en Emiliano Martínez, fyrrverandi leikmaður Arsenal, varði frá honum. Því miður fyrir hann og sem betur fer fyrir Aubameyang barst boltinn beint til hans og náði hann að skora í annarri tilraun.

Staðan því 2:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik skoraði Smith Rowe þriðja mark Arsenal eftir sendingu frá Aubameyang.

Seint í leiknum, á 82. mínútu, minnkaði Villa muninn. Hinn ungi og efnilegi Jacob Ramsey skoraði þá eftir sendingu Leon Bailey.

Það var þó um seinan fyrir gestina og flottur tveggja marka sigur Arsenal niðurstaðan.

mbl.is