Klopp á óskalista Barcelona

Jürgen Klopp hefur náð undraverðum árangri hjá Liverpool.
Jürgen Klopp hefur náð undraverðum árangri hjá Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er efstur á óskalista forráðamanna Barcelona um að taka við liðinu þegar hann lætur af störfum hjá Liverpool. Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu.

Klopp, sem er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2024, hefur áður gefið það út að hann ætli sér að láta af störfum í Bítlaborginni þegar samningur hans rennur út.

Þá hefur þýski knattspyrnustjórinn einnig gefið það út að hann ætli að taka sér hlé frá knattspyrnu þegar hann hættir með Liverpool.

Ronald Koeman stýrir í dag Barcelona en framtíð hans hefur verið mikið í umræðunni eftir dræmt gengi í upphafi tímabilsins.

Sport segir að stjórn Barcelona ætli sér að standa við bakið á Koeman sem er samningsbundinn Barcelona til sumarsins 2022 en félagið gæti fengið inn nýjan stjóra næsta sumar.

mbl.is