Landsliðskonan skaraði fram úr á Englandi

Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark West Ham gegn Tottenham á laugardaginn.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark West Ham gegn Tottenham á laugardaginn. mbl.is/Unnur Karen

Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir er í liði umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir góða frammistöðu með West Ham gegn Tottenham um nýliðna helgi.

Leiknum lauk með 1:0-heimasigri West Ham í Dagenham en Dagný skoraði sigurmark leiksins á 69. mínútu.

Þetta var hennar annað mark í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu í sjö leikjum en hún hefur byrjað sex leiki í deildinni það sem af er tímabili.

West Ham er í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta umferðir, 10 stigum minna en topplið Arsenal.

mbl.is