Frá Real Madrid til Manchester?

Luka Modric verður samningslaus næsta sumar.
Luka Modric verður samningslaus næsta sumar. AFP

Króatíski knattspyrnumaðurinn Luka Modric gæti gengið til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City næsta sumar þegar samningur hans við Real Madrid rennur út. Það er spænski miðillinn SuperDeporte sem greinir frá þessu.

Modric, sem er 36 ára gamall, hefur leikið með Real Madrid frá árinu 2012 en hann hefur tvívegis orðið Spánarmeistari með liðinu og fjórum sinnum Evrópumeistari.

Miðjumaðurinn á að baki 146 landsleiki fyrir Króatíu en Pep Guardiola hefur lengi verið aðdáandi leikmannsins.

Þá greinir SuperDeporte frá því að Modric gæti leikið eitt tímabil á Englandi og endað svo ferilinn í Bandaríkjunum með systurfélagi Manchester City, New York City.

Modric þekkir vel til á Englandi eftir að hafa leikið með Tottenham frá 2008 til ársins 2012 en alls lék hann 160 leiki fyrir Tottenham þar sem hann skoraði 17 mörk.

mbl.is