Klopp vongóður um farsæla lausn

Jürgen Klopp er vongóður um að Mo Salah skrifi undir …
Jürgen Klopp er vongóður um að Mo Salah skrifi undir nýjan samning. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er vongóður um að Mohamed Salah, skærasta stjarna liðsins, geri nýjan samning við félagið fljótlega.

Salah er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2023 og hefur félagið enn ekki náð samkomulagi við Egyptann um nýjan samning.

Egyptinn sagði sjálfur í viðtali við GQ í vikunni að hann væri ekki með brjálæðislegar launakröfur og Liverpool bæri ábyrgð á hvernig samningsviðræðum lyki.

„Ég veit Mo vill vera áfram og við viljum halda honum. Þessir hlutir taka tíma, en ég held þetta sé allt á réttri leið. Ég er jákvæður og stuðningsmennirnir eru ekki eins stressaðir og fjölmiðlamennirnir,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

„Við getum ekki fullyrt um neitt enn þá, en við höfum átt góðar samræður. Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur,“ bætti Þjóðverjinn við.

mbl.is