Ég þarf ekki að hringja í Stevie Gerrard

Steven Gerrard og Jürgen Klopp á góðri stundu.
Steven Gerrard og Jürgen Klopp á góðri stundu. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að það sé algjör óþarfi fyrir sig að hringja  sérstaklega í Steven Gerrard, kollega sinn hjá Aston Villa, fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Möguleiki Liverpool á enska meistaratitlinum er fólginn í því að vinna Wolves á Anfield og treysta á að Gerrard og hans menn í Aston Villa tapi ekki fyrir Manchester City á Etihad-leikvanginum á sama tíma.

Gerrard lék 710 leiki fyrir Liverpool og skoraði 186 mörk fyrir félagið á sautján árum þar sem hann vann með því átta titla, þar á meðal Evrópumeistaratitilinn árið 2005. Hann náði hinsvegar aldrei að verða enskur meistari með uppeldisfélaginu.

Nú gæti Gerrard hinsvegar komið óbeint að því að færa Liverpool meistaratitilinn.

„Ég get sett mig í hans spor, og þannig áttað mig á samhenginu. Ef ég væri að spila leik þar sem ég gæti hjálpað mínum gömlu liðum, Dortmund eða Mainz, þá væri það aukahvatning fyrir mig. En ég spila ekki og Stevie spilar ekki. Það er synd - og það er mikið meiri synd að Stevie sé ekki að spila, heldur en að ég sé ekki að spila," sagði Klopp við BBC.

„Við erum öll mannleg. Stevie mun taka þennan leik 100 prósent alvarlega, hvort sem ég hringi í hann eða ekki. Ég þarf þess ekki, en sennilega eru allir aðrir í félaginu búnir að hringja í hann!" sagði Klopp.

mbl.is