Úlfarnir samþykkja svimandi hátt kauptilboð í miðjumann

Morgan Gibbs-White er á förum frá Úlfunum.
Morgan Gibbs-White er á förum frá Úlfunum. AFP

Nottingham Forest hefur fengið kauptilboð sitt í enska miðjumanninn Morgan Gibbs-White hjá Wolverhampton Wanderers samþykkt. Upphæðin gæti numið allt að 42,5 milljónum punda með árangurstengdum greiðslum.

Frá þessu er greint á The Athletic.

Þar segir að Gibbs-White verði upphaflega keyptur á 25 milljónir punda en að allt að 17,5 milljónir punda gætu bæst ofan á.

Hann er 22 ára gamall og var í láni hjá Sheffield United í ensku B-deildinni á síðasta tímabili, þar sem hann stóð sig vel.

Gibbs-White hefur byrjað báða leiki Úlfanna í ensku úrvalsdeildinni til þessa en liðið var að festa kaup á portúgalska miðjumanninum Matheus Nunes sem greiðir leiðina fyrir Forest og Gibbs-White.

Fer sóknartengiliðurinn í læknisskoðun í dag og standist hann hana mun Gibbs-White skrifa undir fimm ára samning.

Fari félagaskiptin í gegn verður Gibbs-White sextándi leikmaðurinn sem Forest, nýliðarnir í ensku úrvalsdeildinni, semja við í sumar.

mbl.is