Chelsea fær ítalskt ungstirni

Cesare Casadei í leik með ítalska U19-ára landsliðinu gegn því …
Cesare Casadei í leik með ítalska U19-ára landsliðinu gegn því enska fyrr í sumar. AFP/Joe Klamar

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur fest kaup á ítalska miðjumanninum Cesare Casadei. Hann kemur frá Inter Mílanó og er kaupverðið tæplega 17 milljónir punda með árangurstengdum greiðslum.

Casadei, sem er 19 ára gamall, hefur ekki enn spilað aðalliðsleik fyrir Inter en er þó talinn einn efnilegasti miðjumaður Evrópu.

Chelsea greiðir fyrst 12,6 milljónir punda fyrir hann og 4,6 milljónir geta svo bæst við nái hann vissum árangri hjá liðinu.

Trevoh Chalobah, varnarmaður Chelsea, gæti farið í hina áttina til Inter en þó aðeins á láni.

mbl.is