Of fljótur að semja við Liverpool?

Cody Gakpo gekk til liðs við Liverpool frá PSV í …
Cody Gakpo gekk til liðs við Liverpool frá PSV í janúarglugganum. AFP/Oli Scarff

Ronald Koeman, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Hollands í knattspyrnu, veltir því fyrir sér hvort hollenski sóknarmaðurinn Cody Gakpo hafi verið of fljótur að skrifa undir samning við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Gakpo, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool í janúarbyrjun en hann var frábær með Hollendingum á heimsmeistaramótinu í Katar þar sem hann skoraði þrjú mörk í fimm leikjum.

Sóknarmaðurinn hefur ekki farið vel af stað með Liverpool og á enn þá eftir að skora og leggja upp í fyrstu sjö leikjum sínum fyrir félagið.

„Hann fór til félags sem er ekki að spila vel og þá verða hlutirnir erfiðari fyrir vikið,“ sagði Koeman í Youtube-þætti fyrrverandi knattspyrnumannsins Andy van der Meyde.

„Það er erfitt fyrir unga leikmenn þegar hlutirnir ganga ekki vel. Gæðin á Englandi eru meiri en í Hollandi en hann er ungur og á framtíðina fyrir sér. Kannski var hann of fljótur á sér að semja við Liverpool,“ bætti Koeman við.

mbl.is