Með froðufellandi draug á hælunum

Declan Rice, West Ham, og Matheus Cunha, Úlfunum, fórna höndum …
Declan Rice, West Ham, og Matheus Cunha, Úlfunum, fórna höndum í fallbaráttunni. ​ AFP/Ben Stansall

Fallslagurinn er alla jafna farinn að taka á sig skýra mynd þegar aðeins tíu umferðir eru óleiknar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu; alla vega eitt, jafnvel tvö lið komin í erfiða eða nánast vonlausa stöðu og örfá önnur með falldrauginn froðufellandi á hælunum.

Þetta vorið er landslagið allt annað; aðeins skilja fjögur stig að liðið í 12. sæti og liðið í neðsta sæti – sem segir okkur að hvorki fleiri né færri en níu lið eru í bullandi fallhættu þegar lokaspretturinn er að hefjast. Að vísu ber að taka fram að mótið er ekki alveg í takti, frekar en trymbillinn á sveitaballinu á Bakkafirði forðum daga, sum liðin í botn­slagnum eiga einn og jafnvel tvo leiki til góða. Það breytir þó ekki heildarmyndinni mikið.

Ef við snúum klukkunni aftur um eitt ár þá blasir við okkur allt önnur staða. 16 stig voru þá á milli Crystal Palace í 12. sæti og Norwich City í því neðsta. Síðarnefnda liðið skrapaði botninn eins og hver önnur snurvoð og vantaði átta eða eiginlega níu stig út frá markatölunni upp á öruggt sæti. Það er óhugnanlegt dýpi þegar svo fáir leikir eru eftir og súrefnið á kútnum að klárast. Núna er Southampton, sem er neðst, aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti eða sennilega þremur að meðreiknaðri markatölunni.    

Ekki hugmynd!

 

Öll hafa þessi níu lið verið að sækja stig í síðustu umferðum þannig að taflan er á stöðugu iði. Botnlið Southampton og Everton (15. sæti) eru með flest stig úr síðustu sex leikjum sínum, átta talsins. Leeds United (14. sæti) og Bourne­mouth (19. sæti) eru með sjö stig. Minnstur sláttur hefur verið á Crystal Palace (12. sæti) og Nottingham Forest (16. sæti) en þau eru aðeins með tvö stig úr síðustu sex leikjum. 

Dregur Armel Bella-Kotchap, Southampton, Patrick Bamford, Leeds, niður með sér? …
Dregur Armel Bella-Kotchap, Southampton, Patrick Bamford, Leeds, niður með sér? ​ AFP/Oli Scarff


Ef þið eruð að bíða eftir spá frá mér þá er eins gott fyrir ykkur að vera með þolinmæðina í blóðinu, ég hef ekki hugmynd um hvaða þrjú lið fara niður í vor. Ekki hugmynd. Eigi ég að vera alveg hreinskilinn þá sé ég ekki betur en að þau gætu öll bjargað sér. Og öll fallið. Það er lífsmark með öllum þessum níu liðum og af vitnisburði síðustu vikna að dæma er ekkert þeirra líklegra en annað til að snúa á drauginn.

Nánar er fjallað um fallbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert