Klopp hættir hjá Liverpool

Jürgen Klopp er á förum frá Liverpool.
Jürgen Klopp er á förum frá Liverpool. AFP/Adrian Dennis

Jürgen Klopp hættir störfum sem knattspyrnustjóri Liverpool að þessu keppnistímabili loknu.

Hann tilkynnti þetta rétt í þessu í myndbandsávarpi til stuðningsfólks á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins.

„Ég mun yfirgefa félagið þegar keppnistímabilinu lýkur. Ég skil að þetta sé áfall fyrir suma þegar þeir heyra þetta í fyrsta skipti en ég get útskýrt það nánar, eða reynt að útskýra það.

Ég elska nákvæmlega allt í sambandi við þetta félag. Ég elska allt í sambandi við þessa borg og ég elska allt sem viðvíkur stuðningsfólki okkar. Ég elska liðið, ég elska starfsfólkið - ég elska þetta allt.“

Ég er að verða orkulaus

„Að ég skuli taka þessa ákvörðun ætti að sannfæra ykkur um að ég tel að ég verði að komast að þessari niðurstöðu. Hvernig get ég sagt þetta - ég er er að verða orkulaus. Ég vissi að ég þyrfti að tilkynna þetta á einhverjum tímapunkti en það er allt í lagi með mig núna.

En ég veit að ég get ekki haldið áfram endalaust. Og eftir öll þessi ár sem við höfum átt saman, eftir allan þann tíma sem við höfum varið saman, og eftir allt sem við höfum upplifað saman, hefur virðing mín fyrir ykkur aukist, hefur ást mín til ykkar aukist, og ég skulda ykkur því að segja ykkur sannleikann. Og þetta er sannleikurinn,“ sagði Klopp.

Rúm átta ár hjá Liverpool

Klopp er 56 ára gamall Þjóðverji sem hefur stýrt Liverpool frá 8. október 2015 en áður stýrði hann þýsku liðunum Dortmund og Mainz. Undir hans stjórn varð Liverpool Evrópumeistari árið 2019 og lék einnig úrslitaleiki Meistaradeildarinnar árin 2018 og 2022. Liðið varð enskur meistari árið 2020 og bæði bikarmeistari og deildabikarmeistari árið 2022. Þá vann liðið meistarakeppni Evrópu og heimsbikar félagsliða árið 2019 undir hans stjórn.

Liverpool er efst í ensku úrvalsdeildinni, með fimm stiga forskot á Manchester City, Arsenal og Aston Villa, þegar liðið hefur leikið 21 leik af 38 á yfirstandandi keppnistímabili. Þá er það komið í úrslitaleik deildabikarsins, í 4. umferð ensku bikarkeppninnar og í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Klopp á því ágæta möguleika á að bæta fleiri titlum í safnið áður en hann kveður félagið í sumar.

Sjá má Klopp flytja yfirlýsinguna hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert