Um 500 börn sóttu námskeið hjá Arena

Mynd frá úrslitakeppni FRÍS sem fór fram í rafíþróttahöllinni Arena.
Mynd frá úrslitakeppni FRÍS sem fór fram í rafíþróttahöllinni Arena. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 500 börn og unglingar hafa sótt vikulöng rafíþróttanámskeið hjá Arena á vegum Breiðabliks í sumar en síðasta námskeiðið stendur nú yfir og lýkur á morgun föstudag.

Námskeiðin hafa verið á meðal þeirra allra vinsælustu hjá Breiðablik í sumar en þetta er í fyrsta skipti sem Arena og Breiðablik bjóða uppá svo viðamikil sumarnámskeið.

„Þetta eru mjög merkileg tímamót. Rafíþróttir er að verða ein stærsta tegund íþrótta sem iðkuð er hjá einu stærsta íþróttafélagi landsins, Breiðablik en Arena sér um alla aðstöðu og þjálfun fyrir Breiðablik.“ segir Þórir Viðarson, yfirþjálfari rafíþrótta hjá Arena.

„Markmiðið með rafíþróttastarfinu er að virkja börn og unglinga sem spila tölvuleiki oft ein heima hjá sér til að koma í Arena og hitta þar jafnaldra sína með sömu áhugamál. Krakkarnir blómstra, kynnast öðrum börnum með svipuð áhugamál og síðan er séð til þess að allir fái næga hreyfingu og teygjur - það er ekki bara setið við tölvuna allan daginn.“ bætir Þórir við.

Námskeiðin hjá Arena hafa verið hálfsdags námskeið sem spanna viku í senn. Meginuppistaða námskeiðsins er skipulögð iðkun rafíþrótta undir handleiðslu menntaðra þjálfara en einnig hafa börnin farið út á hverjum degi til að hreyfa sig og liðka.

Bráðlega hefjast skráningar á haustönn rafíþrótta hjá Breiðablik & Arena en þar er um að ræða 90 mínútna æfingar tvisvar í viku yfir vetrartímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert