Íþróttaráð FIA viðurkennir að hafa engar sannanir fyrir gagnanotkun af hálfu McLaren

Max Mosley, forseti FIA og forseti íþróttaráðs FIA, kemur til …
Max Mosley, forseti FIA og forseti íþróttaráðs FIA, kemur til vitnaleiðslanna í gær. Löngum hafa verið litlir kærleikar með þeim Ron Dennis, liðsstjóra McLaren. ap

Íþróttaráð Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) staðfestir í forsendum dóms síns yfir McLarenliðinu, að það hafi engar sannanir þess efnis að upplýsingar úr tæknigögnum Ferrari hafi verið notuð til að hanna og smíða sigursælar silfurörvar McLaren.

Kemur þetta fram í 15 síðna skjali með forsendum fyrir dómi íþróttaráðsins í París í gær, sem afhent var blaðamönnum í fjölmiðlamiðstöðinni í Spa-Francorchamps í dag. Ráðið segist ekki hafa neinar sannanir fyrir því að hin miklu gögn, sem munu hafa borist McLarenhönnuðinum Mike Coughlan frá Nigel Stepney, fyrrverandi yfirvélvirkja Ferrari.

Ráðið segist hins vegar ekki geta trúað öðru en að því að gögnin hafi ráðið um hvernig Coughlan gekk til starfa í bílsmiðju McLaren í Woking, en honum var vikið úr starfi um leið og upp komst um að hann hefði undir höndum 780 síðna leyniskjal frá Ferrari, m.a. tæknigögn um 2007-bíl Ferrari.

“Íþróttaráðið hefur engar sannanir fyrir því að einhver hönnun Ferrari hafi verið yfirfærð yfir á bíl McLaren sem afleiðing þess að Coughlan hafi komið trúnaðargögnum frá Stepney inn til McLaren,” segir í forsendunum.

“Það er, hins vegar, erfitt að samþykkja að leynileg Ferrarigögn sem Coughlan þekkti hafi aldrei haft áhrif á mat hans í störfum sínum. Það er ekki nauðsynlegt McLaren að hafa afritað algjöra Ferrarihönnun til að hafa gagnast þekking Coughlans. Leynilegu Ferrarigögnin geta, til dæmis, ekki annað en hafa mótað hugmyndir sem Coughlan setti fram við aðra í hönnunardeild McLaren, svo sem varðandi hvaða hönnunarverkefni skyldu njóta forgangs eða hvaða rannsóknir skyldi stunda. Gagnsemin gæti hafa verið fólgin í því að Coughlan var í aðstöðu til að leggja til aðrar aðferðir til að nálgast mismunandi hönnunarviðfangsefni,” segir í forsendum íþróttaráðs FIA.

McLaren hefur haldið því fram, að Coughlan hafi haft tiltölulega takmarkað stjórnunarhlutverk í bílsmiðjunni í Woking í Surrey. Útilokað hafi verið fyrir hann að gera tillögur um verkefni án þess að útskýra hvernig slíkar hugmyndir væru til komnar, og án þess að aðrir hafi verið meðvitaðir um uppruna þeirra. Við vitnaleiðslurnar í gær lagði McLaren fram yfirlýsingar frá fjölda tæknimanna sinna sem segjast ekki vita um neinar breytingar á McLarenbílnum þar sem stuðst hafi verið við leynileg hugverk Ferrari.

Frá fundi FIA í París í gær.
Frá fundi FIA í París í gær. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina