Ricciardo vann með glæsibrag

Daniel Ricciardo á Red Bull var í þessu að vinna ótrúlegan sigur í kínverska kappakstrinum. Akstur hans einkenndist af glæsileik, ekki síst eftir að öryggisbíll var sendur út í brautina þegar rúmur þriðjungur var eftir af keppni. Framúrtökur hans voru með glæsibrag.

Ricciardo vann með þessu sinn sjötta sigur á ferlinum en það einkennir þá, að í þau skipti hóf hann keppni aldrei meðal þriggja fremstu. Í Sjanghæ hóf hann keppni í sjötta sæti. 

Sebastian  Vettel á Ferrari tók forystu strax af ráspól en blokkeraði liðsfélaga sinn Räikkönen sem féll við það úr öðru sæti í það fimmta. Valtteri Bottast á Mercedes komst upp í annað sætið og Max Verstappen á Red Bull í það þriðja.Voru fyrstu 20 hringirnir af 56 tiltölulega tíðindalitlir en Ferrari flaskaði á því að bíða mun lengur með að skipta um dekk en Bottas og varð að sjá á eftir honum fram úr sér við lok dekkjastoppsins.

Allt stokkaðist síðan upp eftir samstuð ökumanna Toro Rosso en öryggisbíll var þá kallaður út meðan hreinsað var skeinuhætt brak sem áreksturinn skildi eftir sig. Ökumenn Red  Bull gripu tækifærið og skutust inn að bílskúr til nýrra dekkjaskipta. Það gerðu hvorki ökumenn Ferrari né Mercedes og guldu Lewis  Hamilton og Kimi Räikkönen þess sér í  lagi.

Tókst bæði Ricciardo og Verstappen að vinna sig upp á við og eftir að hafa lagt fyrst Hamilton og Vettel að velli deif Ricciardo sér inn fyrir Bottas í næst síðustu beygju með einstökum glæsibrag og tók forystuna er um 10 hringir voru eftir. Verstappen vildi ekki vera minni maður en liðsfélaginn en í þeim tilraunum sótti hann sem oft fyrr alltof gróft og glannalega og renndi sér inn í bíl Vettels svo báðir snerust á brautinni og töpuðu bílum fram úr sér. 

Báðir töpuðu á þessu og þá sérstaklega Vettel en fyrir að vera valdur að óþarfa árekstri var Verstappen refsað með því að 10 sekúndum var bætt við brautartíma hans.

 Óhætt er að segja að seinni hlutii kappakstursins hafi boðið upp á ótrúlegar sviptingar og afbragðs tilþrif. Fjörið á brautinni fellur í góðan jarðveg. Þriðji kappakstur ársins og sá langbesti til þessa.

Mercedes með eins stigs forystu

Eftir kappaksturinn í Kína er staðan sú í stigakeppinni um formúlutitlana, að í keppni ökumanna er Vettel með 54 stig, Hamilton 45 og Bottas 40. Ricciardo er með 37, Räikkönen 30 og Fernando Alonso á McLaren 22 en jafnmörg stig er Nico Hülkenberg á Renault með.

Í keppninni um titil liðanna er Mercedes með eins stigs forystu á Ferrari, 85:84. Í þriðja sæti er Red Bull með 55, McLaren með 28 og Renault 25. Toro Rosso er með 12 stig, Haas með 11, Sauber 2 og Force India 1. Gamla stórveldið Williams er eina liðið sem ekki hefur hlotið stig í ár. 

mbl.is