Gott að stöðva Mercedes

Ferrarifákarnir fremstir í upphafi kappakstursins í Sjanghæ í Kína
Ferrarifákarnir fremstir í upphafi kappakstursins í Sjanghæ í Kína AFP

Sebastian Vettel hefur hrósað styrkleika keppnisbíls Ferrari en hann hefur unnið ráspól tveggja síðustu móta, í bæði skipti með naumu forskoti á liðsfélagann Kimi Räikkönen.

„Bíllinn var ótrúlegur allan hringinn, hann verður bara betri og betri,“ sagði Vettel en í Sjanghæ í Kína varð hann aðeins 87 þúsundustu úr sekúndu á undan Räikkönen.

„Ég veit ekki hvort aðrir ökumenn hafi átt í vandræðum með dekkin en í okkar tilfelli var það ekkert vandamál. Tilfinningin var góð allan hringinn og það veit á gott.

Þetta hefur verið Mercedesbraut svo lengi og því var einkar ánægjulegt að stöðva einræði þeirra hér,“ sagði Vettel.

mbl.is