Verstappen fljótastur - Ricciardo klessti

Daniel Ricciardo stígur upp úr Renaultbíl sínum í Spielberg í …
Daniel Ricciardo stígur upp úr Renaultbíl sínum í Spielberg í dag. AFP

Max Verstappen á Red Bull setti hraðasta hring á seinni æfingu dagsins í Spielberg í Austurríki. Æfingarinnar verður helst minnst fyrir harðan skell sem Daniel Ricciardo hlaut er hann skall á öryggisvegg.

Ricciardo flaug út úr brautinni seint á hringnum, í næstsíðustu beygju. Missti hann vald á Renaultbílnum sem snarsnerist og virtist ökumaðurinn haltra frá bílnum eftir að hann klifraði upp úr honum. Læknar leiddu snimmhendis í ljós að hann hefði ekki meiðst.

Besti hringur Verstappen var hálfri sekúndu betri en hraðasti hringur Valtteri Bottas á Mercedes. Racing Point félagarnir Sergio Perez og Lance Stroll áttu þriðja og fjórða besta hringinn.

Búist er við að tímatakan á  morgun fari fram í rigningu en komi hún í veg fyrir akstur og ekki verði hægt að halda hana á sunnudagsmorgninum mun röðin á seinni æfingunni í dag gilda fyrir röðina á rásmarki.

Carlos Sainz á McLaren varað fimmti, ögn á  undan Lewis Hamilton sem lýsti óánægju með hraðaskort bílsins í talstöðinni. Alexander Albon á Red Bull varð sjöundi, Lando Norris á McLaren áttundi, Charles Leclerc á Ferrari níundi  og  Esteban Ocon á Renault tíundi.

mbl.is