Sigldi með himinskautum

Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Búdapest í dag.
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Búdapest í dag. AFP

Lítið annað er hægt að segja um ungverska kappakstrinum en að Lewis Hamilton var í algjörum sérflokki og rúmlega það. Virtist hann helst sem guð á ferð með himinskautum svo langt var hann yfir keppinautana hafinn, ef svo mætti komast að orði, í óeiginlegri merkingu.

Hamilton ræsti af stað fremstur og sveif strax á brott frá mótherjum sínum sem veittu honum aldrei neina keppni. Svo miklir voru yfirburðir hans að er á leið stundaði hann sparakstur vegna slitinna dekja. Svo mikið var forskot Hamiltons að hann gat leyft sér að koma inn að bílskúr Mercedees og skipta yfir á ný dekk þegar aðeins þrír hringir voru eftir.

Max Verstappen á Red Bull varð annar í mark og lagði grunninn að því með fantagóðri ræsingu þar sem hann skaust beint upp í annað sætið. Valtteri Bottas á Mercedes sótti jafnt og þétt á seinni hluta kappakstursins og velgdi Verstappen verulega undir vöngum. Vantaði hann þó minnst einn eða tvo hringi til viðbótar til að komast fram úr.

Með 86. sigri sínum í formúlunni jafnaði Hamilton met Michaels Schumachers um fjölda sigra í einni og sömu kappakstursbrautinni í röð. Vann hann sinn áttunda sigur í röð í Búdapest í dag.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Lance Stroll á Racing Point, Alexander Albon á Red Bull, Sebastian Vettel á Ferrari, Sergio Perez á Racing Point, Daniel Ricciardo á Renault, Kevin  Magnussen á Haas og Carlos Sainz á McLaren

Flaggið fellur til marks um sigur Lewis Hamilton hjá Mercedes …
Flaggið fellur til marks um sigur Lewis Hamilton hjá Mercedes í Búdapest í dag. AFP
Liðsmenn Mercedes fagna Lewis Hamilton er hann ekur fyrstur allra …
Liðsmenn Mercedes fagna Lewis Hamilton er hann ekur fyrstur allra yfir marklínuna í Búdapest í dag. AFP
mbl.is