Dóra Stefánsdóttir: Frábært hve margir fylgjast með okkur

Dóra Stefánsdóttir á æfingu íslenska liðsins í Zrece í morgun.
Dóra Stefánsdóttir á æfingu íslenska liðsins í Zrece í morgun. Víðir Sigurðsson
“Ég held að það sé bara jákvætt að við skulum vita svona lítið um þetta slóvenska lið. Þar með getum við lagt nákvæmlega sömu áherslur og fyrir hina leikina í keppninni, einbeitt okkur að sjálfum okkur og leik liðsins, og komið í leikinn með sem mestu sjálfstrausti,” sagði Dóra Stefánsdóttir landsliðskona í knattspyrnu við mbl.is í Dravograd.

Eftir Víði Sigurðsson í Slóveníu:
vs@mbl.is

Ísland leikur gegn Slóveníu á morgun klukkan 15 að íslenskum tíma. Þetta er fjórði leikur liðsins í undankeppni Evrópumótsins og íslenska liðið er með fullt hús stiga eftir að hafa lagt Grikki, Frakka og Serba að velli, og hefur ekki fengið á sig mark. Dóra sagði að það væri ekkert annað í spilunum en að sækja þrjú stig til Dravograd, annars hefði liðið alveg eins getað setið heima.

“Við reynum að hugsa bara um einn leik í einu og einbeita okkur að því sem við getum og gerum vel. Fyrirfram er þetta vissulega leikur sem við eigum að vinna en það sem skiptir mestu máli er að við náum að spila okkar leik og ná okkar samspili sem hefur gengið vel í síðustu leikjum. Ef það gengur eftir er ég handviss um að við vinnum leikinn,” sagði Dóra, sem leikur með sænska úrvalsdeildarliðinu LdB Malmö.

“Það er fyrst og fremst spennandi og skemmtilegt að koma aftur í leik í þessari keppni, ekki síst eftir þá stemmningu sem skapaðist í síðustu tveimur leikjum, gegn Frökkum og Serbum, þar sem við náðum að hrífa þjóðina með okkur. Við höfum fengið mjög jákvæða umfjöllun eftir þá leiki og það er frábært hve margir fylgjast núna með því sem við erum að gera. Fólk er greinilega búið að átta sig á því að stelpur geta líka spilað fótbolta.

Við fengum sex þúsund manns á völlinn á síðasta leik, gegn Serbum, og það skipti ótrúlega miklu máli, meira máli en margir gera sér grein fyrir, því við fundum svo vel fyrir þeim stuðningi sem við fengum. Það var frábært að spila fyrir þann fjölda í miðnætursólinni á Laugardalsvellinum. Þetta er leikur sem gleymist seint.

Ég held að þessir tveir síðustu leikir geri okkur auðveldara fyrir að ná upp sjálfstrausti og einbeitingu fyrir þennan leik hérna í Slóveníu. Nú vitum við að fólk er að fylgjast með okkur og það hefur mikið að segja.”

Mun pússa skotskóna vel

Dóra kom íslenska liðinu á bragðið með marki strax á upphafsmínútunum gegn Serbum og hún vonast eftir því að fá færi til að endurtaka leikinn í Dravograd. “Ég ætla að vona það, allavega mun ég pússa skotskóna vel og þeir verða tilbúnir fyrir leikinn. Maður verður í það minnsta að láta á það reyna og ná skotum á markið.

Það sem mestu máli skiptir er að við höfum sjálfstraust til að ljúka þeim sóknum sem við fáum, spila hratt og einfalt með fáum snertingum og nýta vel þau færi sem gefast. Þetta snýst um að fá þrjú stig, ekkert annað, og ég hef enga trú á öðru en að það sé nægilegur metnaður í okkar hópi til að skila þessu verkefni vel af hendi,” sagði Dóra Stefánsdóttir.

Það er heitt í Slóveníu og á æfingunni í morgun ...
Það er heitt í Slóveníu og á æfingunni í morgun var gert hlé nokkrum sinnum til að landsliðskonurnar gætu svalað þorstanum. Víðir Sigurðsson
mbl.is