Hallbera samdi við besta liðið á Ítalíu

Hallbera spilar á Ítalíu næstu mánuðina.
Hallbera spilar á Ítalíu næstu mánuðina. mbl.is/Golli

Hallbera G. Gísladóttir, landsliðskona í fótbolta, er búin að semja við ítalska liðið ASD Torres um að leika með því út tímabilið eða út maímánuð.

Hallbera lék með Piteå í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár en hún ákvað að staldra ekki lengur við þar og hefur hafnað tilboðum frá liðum á Norðurlöndum undanfarnar vikur.

Í viðtali við Morgunblaðið í lok nóvember taldi Hallbera líklegast að hún væri á heimleið miðað við hvernig staðan væri en þess í stað er hún nú stödd á Ítalíu og búin að semja við Torres.

Torres-liðið, sem er á Sardiníu, er sjöfaldur meistari á Ítalíu og hefur unnið deildina þar fjögur ár í röð.

Hallbera er ekki alveg óþekkt hjá Torres því hún skoraði glæsilegt mark þegar hún lék með Val gegn ítalska liðinu í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum.

Markið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert