Stórsigur Blika á Val

Ellert Hreinsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í kvöld.
Ellert Hreinsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Blikar unnu stórsigur á Valsmönnum í átta liða úrslitum Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld en lokatölur urðu 5:1. Blikar mæta Víkingum í undanúrslitum Lengjubikarsins en þeir slógu FH-inga úr leik fyrr í kvöld.

Arnþór Ari Atlason kom Blikum yfir en Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir Valsara úr vítaspyrnu. Gunnleifur Gunnleifsson markvörður braut af sér innan teigs en hann vildi meina að um leikaraskap væri að ræða í viðtali við SportTV eftir leik.

Blikar réðu hins vegar lögum og lofum í leiknum og bættu við fjórum mörkum frá þeim Höskuldi Gunnlaugssyni og Ellerti Hreinssyni sem skoruðu tvö mörk hvor. 

mbl.is