Evra í sjö mánaða bann fyrir sparkið

Patrice Evra leiddur af velli af liðsfélögum sínum eftir atvikið.
Patrice Evra leiddur af velli af liðsfélögum sínum eftir atvikið. AFP

Patrice Evra, leikmaður Marseille í Frakklandi, hefur verið úrskurðaður í sjö mánaða keppnisbann sem gildir til 30. júní árið 2018 og hefur því lokið leik á tímabilinu.

Evra brást illa við níðsöngvum stuðningsmanna félagsins í sinn garð fyrir leik gegn Vitoria Guimaraes í Evrópudeildinni. Svo illa að hann ákvað að sparka í höfuð eins þeirra og fékk rautt spjald áður en leikurinn hófst. Félagið dæmdi hann í ótímabundið bann og í dag úrskurðaði UEFA í máli hans.

Evra má ekki taka þátt í leik á vegum UEFA fram til 30. júní 2018 og er að auki sektaður um 10 þúsund evrur.

mbl.is