Sparkaði í leikmanninn vegna stingandi sársauka

Diego Carlos fær að líta rauða spjaldið hjá Tony Chapron.
Diego Carlos fær að líta rauða spjaldið hjá Tony Chapron. AFP

Knatt­spyrnu­dóm­ar­inn Tony Chapron hefur útskýrt hvers vegna hann ákvað að sparka í Diego Carlos, leikmann Nantes, í efstu deild frönsku knattspyrnunnar í gær, eftir að sá síðarnefndi rakst í Chapron með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Þetta kemur fram á BBC.

Atvikið átti sér stað í 1:0 sigri stórliðsins Paris Saint Germain á Nantes en Chapron lét sér ekki nægja að sparka í Carlos sem var á gulu spjaldi, heldur gaf hann honum einnig hans síðara gula spjald og rak hann í sturtu.

„Eftir áreksturinn fann ég fyrir stingandi sársauka vegna nýlegra meiðsla sem ég hef verið að glíma við. Ég brást illa við með því að hreyfa fótinn í átt að leikmanninum,“ sagði Chapron í yfirlýsingu en hann hefur verið settur í ótímabundið bann af franska knattspyrnusambandinu.

„Ég er búinn að skila inn skýrslu til aganefndar þar sem ég hef beðið um að (síðari) áminningin verði dregin til baka þar sem ég hef nú séð á myndum að hann felldi mig ekki viljandi,“ sagði Chapron en hann biðlar einnig til franskra knattspyrnuyfirvalda að aflétta banninu.

Í annarri skýrslu sem kom frá aganefnd franska knattspyrnusambandsins var síðara gula spjald Carlos dregið til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert