Svíar sætta sig við niðurstöðu Danamálsins

Pernille Harder, er fyrirliði danska landsliðsins í knattspyrnu.
Pernille Harder, er fyrirliði danska landsliðsins í knattspyrnu. AFP

Sænska knattspyrnusambandið er hætt við að áfrýja úrskurði UEFA vegna leiks Svía og Dana í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna, sem aldrei fór fram, til Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS.

Danska landsliðið stóð í hörðum verkfallsaðgerðum í aðdraganda leiksins sem fram átti að fara í Gautaborg í haust og úr varð að leiknum var aflýst. UEFA úrskurðaði síðan Svíum 3:0 sigur og sektaði Dani um andvirði tæplega tveggja milljóna íslenskra króna.

Svíar voru ekki sáttir við þessa niðurstöðu, vildu að Danir fengju harðari refsingu, og áfrýjuðu úrskurðinum. Áfrýjuninni var vísað frá af áfrýjunardómstól UEFA í byrjun þessa mánaðar og þá íhuguðu Svíar að fara með málið til CAS.

Sænska knattspyrnusambandið gaf síðan út í dag að það ætlaði ekki lengra með málið. Andreas Jansson, fjölmiðlafulltrúi sambandsins, staðfesti það við Ritzau fréttastofuna og lagði áherslu á að þó Svíar væru óánægðir með úrskurðinn hefðu mótmæli þeirra á engan hátt beinst gegn danska kvennalandsliðinu eða danska knattspyrnusambandinu.

Svíar eru með fullt hús stig í efsta sæti undanriðilsins, 9 stig eftir þrjá leiki, og Danir eru með 6 stig eftir þrjá leiki í öðru sæti. Sigurliðið kemst beint á HM í Frakklandi og liðið í öðru sæti getur komist í umspil.

mbl.is