Allegri með boð um að taka við Real Madrid

Massimiliano Allegri.
Massimiliano Allegri. AFP

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Florentino Perez forseti Real Madrid hafi sett sig í samband við Massimiliano Allegri þjálfara Ítalíumeistara Juventus og boðið honum að taka við þjálfarastarfinu hjá félaginu.

Real Madrid er án þjálfara eftir að Zinedine Zidane ákvað óvænt að segja upp störfum nokkrum dögum eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeildinni þriðja árið í röð.

Perez hefur lengi haft augastað á Allegri sem hefur þjálfað Juventus frá árinu 2014 og hefur liðið hampað ítalska meistaratitlinum öll árin undir hans stjórn.

Ítalska blaðið Tuttosport er með þær vangaveltur að fari Allegri til Real Madrid gæti Zidane orðið næsti þjálfari Juventus en hann lék með liðinu frá 1996 til 2001 og varð í tvígang ítalskur meistari með því.

mbl.is