Síminn stoppar ekki vegna Arnórs

Arnór Smárason ásamt Simon Mefsin.
Arnór Smárason ásamt Simon Mefsin. Ljósmynd/Lilleström

Arnór Smárason hefur spilað afar vel með Lillestrøm síðan hann kom til félagsins frá Hammarby og er hann í miklum metum hjá stuðningsmönnum, enda skorað fjögur mörk í sex leikjum með liðinu. Arnór gerði samning við Lillestrøm út leiktíðina og er óvíst hvort hann verði áfram hjá félaginu á næsta tímabili. 

Simon Mefsin, yfirmaður íþróttamála hjá Lillestrøm, segist fá mikið af skilaboðum vegna Arnórs. „Ég er búinn að fá mörg skilaboð frá ástríðufullum stuðningsmönnum. Þeir tala um hversu góður Arnór er, en þeir hafa einnig áhyggjur af að hann fari annað, stundum stoppar síminn ekki,“ sagði Mefsin í samtali við Nettavisen í Noregi. 

„Við vissum að hann myndi gefa liðinu mikið þegar við fengum hann til okkar. Hann hefur ekki valdið vonbrigðum og nú njótum við þess að hafa hann á meðan við getum,“ bætti Mefsin við. Arnór vildi sjálfur lítið tjá sig um framtíð sína. 

„Ég er bara búinn að vera hérna í mánuð og við gerðum samning út leiktíðina. Við höfum ekki rætt málin frekar en það,“ sagði Arnór við sama miðil. Arnór er þrítugur og var hann spurður hvort peningar væru mikilvægir á þessu stigi ferilsins. 

„Auðvitað vill maður spila í eins sterkri deild og hægt er. Nú líður mér vel hjá Lillestrøm og ég er opinn fyrir öllu þegar kemur að framtíðinni,“ sagði Arnór. 

mbl.is