Sturridge spilaði ótrúlega vel

Jürgen Klopp var kampakátur í kvöld.
Jürgen Klopp var kampakátur í kvöld. AFP

„Það var mjög mikilvægt að byrja á sigri. Við vorum sérstaklega sterkir þegar við vorum með boltann,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir sigurinn magnaða á PSG í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Roberto Firmino tryggði Liverpool 3:2-sigur með marki í uppbótartíma. 

Klopp var afar sáttur við frammistöðu síns liðs og þá sérstaklega Daniel Sturridge. 

„Við breyttum um taktík til að verjast því sem þeir reyndu og við náðum að loka öllum götum. Daniel Sturridge spilaði ótrúlega vel, ég hef aldrei séð hann í eins góðu formi, hann var alls staðar. Hann hjálpaði hægra og vinstra megin og var í teignum þegar á þurfti [að halda].“

Firmino hefur verið að glíma við vandræði í auga, eftir augnpot sem hann fékk gegn Tottenham um helgina. Þrátt fyrir það skoraði hann markið og hélt um augað er hann fagnaði. 

„Það er gott að geta sett Firmino inn á, ég elskaði fagnið hans,“ sagði hæstánægður Klopp. 

mbl.is