Fyrrverandi leikmaður United féll á lyfjaprófi

Giuseppe Rossi.
Giuseppe Rossi. AFP

Ítalski framherjinn Giuseppe Rossi sem á sínum tíma lék með liði Manchester United á yfir höfði sér keppnisbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Efnið dorzolamide fannst í sýni sem tekið var af leikmanninum eftir leik með Genoa gegn Benevento í maí í vor. Efnið dorzolamide er venjulega að finna í augndropum en Rozzi hefur neitað því að hafa notað augndropana að því er ítalska blaðið Gazzetta dello Sport greinir frá.

Rossi er 31 árs gamall og á að baki 30 leiki með ítalska landsliðinu en hann hefur verið mikið frá vegna meiðsla í hné á ferli sínum. Hann er án félags í dag en samningur hans við Genoa rann út í vor. Rossi lék fimm deildarleiki með Manchester United og skoraði í þeim eitt mark en hann hefur einnig leikið með Newcastle, Villareal, Fiorentina, Levante og Celta Vigo.

Rossi á yfir höfði sér eins árs keppnisbann frá ítölsku lyfjanefndinni en mál hans verður tekið fyrir 1. október.

mbl.is