Solari stýrir Real til ársins 2021

Santiago Solari skrifaði undir þriggja ára samning við Real Madrid ...
Santiago Solari skrifaði undir þriggja ára samning við Real Madrid í dag. AFP

Knattspyrnustjórinn Santiago Solari skrifaði í dag undir þriggja ára langtímasamning við Real Madrid en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Solari var ráðinn tímabundinn knattspyrnustjóri liðsins 29. október eftir að Julen Lopetegui var rekinn frá félaginu.

Solari var í fyrstu ráðinn sem tímabundinn stjóri liðsins en bæði Antonio Conte og Arséne Wenger voru sterklega orðaðir við stjórastöðuna hjá Real Madrid. Solari hefur hins vegar staðið sig mjög vel og hefur liðið unnið alla fjóra leiki sína undir stjórn Argentínumannsins.

Solari hafði stýrt B-liði Real Madrid frá árinu 2016, áður en hann var ráðinn tímabundinn stjóri A-liðsins. Hann lék með Real Madrid á árunum 2000 til ársins 2005 en Real Madrid er í sjötta sæti spænsku 1. deildarinnar með 20 stig, fjórum stigum minna en topplið Barcelona eftir fyrstu tólf umferðirnar.

mbl.is