Hvorki Ronaldo né Messi?

Luka Modric frá Króatíu þykir líklegur í kjörinu um Gullboltann …
Luka Modric frá Króatíu þykir líklegur í kjörinu um Gullboltann í ár. AFP

Hvorki Cristiano Ronaldo né Lionel Messi verða í hópi þriggja efstu í hinu árlega kjöri France Football á besta knattspyrnumanni heims, Gullboltanum, eða Ballon d'Or, sem verður opinberað 3. desember, samkvæmt fjölmiðlum í Frakklandi og á Ítalíu.

Bæði Tuttosport og Corriere della Sera á Ítalíu segja að hvorugur sé í hópi þriggja efstu, sem yrði í fyrsta skipti í tíu ár, en þeir Ronaldo og Messi hafa hreppt Gullboltann fimm sinnum hvor frá árinu 2008.

L'Equipe í Frakklandi hefur gefið út stutt myndband vegna hátíðarinnar og á því sjást Kylian Mbappé, Raphael Varane og Luka Modric fyrstir áður en öðrum bregður fyrir. Áður hafði RFI í Frakklandi fullyrt að þegar helmingur atkvæða hefði verið kominn inn hefðu Modric, Varane og Mbappé skipað þrjú fyrstu sætin.

Enginn þessara miðla hefur hins vegar fullyrt neitt um hver þessara þriggja líklegu kandídata muni hreppa Gullboltann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert