Meta hvort leit verði haldið áfram

Emiliano Sala í búningi Nantes, þaðan sem hann var seldur …
Emiliano Sala í búningi Nantes, þaðan sem hann var seldur til Cardiff. AFP

Þrátt fyrir afar víðtæka leit hefur enn ekkert spurst til flugvélarinnar sem flutti Emiliano Sala, nýjasta leikmann Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, sem ásamt flugmanni var á leið frá Nantes í Frakklandi til Cardiff.

Flugvélin hvarf af ratsjám um klukkan 20.30 á mánudagskvöld og síðan þá hefur verið leitað í lofti og á sjó. Aðstæður voru góðar í gær og rétt áður en leit var hætt vegna myrkurs fund­ust fljót­andi hlut­ir í Ermar­sundi sem talið er að gætu verið úr vél­inni. Enn hefur ekki verið staðfest hvort um brak úr vélinni sé að ræða, en stjórnendur leitarinnar hafa nú sagt að litlar líkur séu á að vélin finnist í heilu lagi. Þá eru engar líkur taldar á því að Sala og flugmaðurinn finnist á lífi.

Í dag hefur verið leitað á stóru svæði þar sem brakið fannst í gærkvöld, en engar nýjar vísbendingar hafa komið fram. Þrjár flugvélar og ein þyrla hafa leitað í dag, auk þess sem skoðaðar eru gervihnattamyndir.

Leitinni er stjórnað frá Frakklandi og Mehmet Dalman, stjórnarformaður Cardiff, er þangað kominn til þess að hjálpa til og komast að því frekar hvað gerðist. Þá hefur hann sagt að Cardiff ætti engan þátt í því að skipuleggja flugið, en margir hafa furðað sig á því að eins hreyfils vél hafi verið notuð fyrir ferðina.

Í tilkynningu frá lögreglu nú síðdegis kemur fram að leit verði haldið áfram í allan dag. Ef engar nýjar vísbendingar komi fram verður metið í lok dags hvort og þá hvernig leit verði haldið áfram.

mbl.is