Hvað sagði Messi um Ronaldo?

Lionel Messi fagnar marki gegn Lyon í gærkvöld.
Lionel Messi fagnar marki gegn Lyon í gærkvöld. AFP

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo sýndu í vikunni að þeir eru tveir af bestu fótboltamönnum sögunnar ef ekki þeir bestu en báðir sýndu snilldartakta þegar Barcelona og Juventus tryggðu sér farseðilinn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Ronaldo skoraði þrennu í fyrrakvöld þegar Juventus sló Atlético Madrid úr leik og Messi skoraði tvö og lagði upp tvö í 5:1 sigri Barcelona gegn Lyon í gær. Þessir frábæru leikmenn hafa átt það til í gegnum tíðina að svara hvor öðrum inni á vellinum og í gærkvöld var komið að Messi.

„Cristiano var áhrifamikill. Þetta kom mjög á óvart því ég hélt að Atlético yrði sterkara en Cristiano átti töfrandi kvöld með mörkunum þremur,“ sagði Messi eftir leikinn en þetta er í fyrsta sinn sem hann skorar tvö mörk og gefur tvær stoðsendingar í Meistaradeildinni.

Messi hefur nú skorað 108 mörk í Meistaradeildinni en Ronaldo er sá markahæsti með 124. Barcelona er eina spænska liðið sem eftir er í keppninni en síðast gerðist það fyrir níu árum að eitt spænskt lið komst í átta liða úrslitin. Dregið verður til þeirra á morgun.

„Allir andstæðingar verða erfiðir. Ajax, sem dæmi, sýndi að það er með frábært lið af ungum leikmönnum sem óttast enga. Þetta verður erfitt hver svo sem andstæðingurinn verður. Við verðum að búa okkur undir mjög erfiða áskorun,“ sagði Messi en Barcelona er ósigrað í 30 leikjum í röð á heimavelli í Meistaradeildinni sem er met.

mbl.is