Vill enda ferilinn hjá Real Madrid

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Wales-verjinn Gareth Bale vill ljúka ferli sínum hjá Real Madrid en óvissa ríkir um framtíð hans hjá Madridarliðinu og ekki síst eftir að Ziniedine Zidane sneri aftur í þjálfarastarfið hjá liðinu.

Jonathan Barnett umboðsmaður Bale segir að leikmaðurinn vilji halda kyrru fyrir hjá Real Madrid.

„Bale er mjög ánægður. Hann vill klára feril sinn hjá Real Madrid en við skulum sjá hvað gerist. Hann mun ræða við Zidane,“ sagði Barnett í samtali við BBC.

Bale hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2013 en hann kom til liðsins frá Tottenham. Það hefur gengið upp og ofan hjá honum með spænska stórliðinu en á þessu tímabili hefur hann átt frekar erfitt uppdráttar og hafa stuðningsmenn liðsins ekki verið ánægðir með framlag Wales-verjans, sem tryggði Real Madrid Evrópumeistaratitilinn á síðustu leiktíð þegar hann kom inn á í úrslitaleiknum á móti Liverpool og skoraði tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert