Goðsögn Liverpool í þjálfun í Ástralíu

Robbie Fowler.
Robbie Fowler. AFP

Robbie Fowler, ein af goðsögnum Liverpool, verður á morgun kynntur til leiks sem nýr þjálfari ástralska knattspyrnuliðsins Brisbane Roar.

Fowler, sem er 44 ára gamall og skoraði 189 mörk í 369 leikjum fyrir Liverpool á árum áður, hélt til Ástralíu í dag og honum er ætlað að taka við þjálfun Brisbane Roar sem er í 9. sæti í áströlsku A-deildinni. Liðið hefur verið án aðalþjálfara í fjóra mánuði eða frá því John Aloisi hætti með liðið.

Fowler er ekki ókunnugur áströlsku A-deildinni en hann lék með liðum North Queensland Fury og Perth Glory á síðustu árum ferils síns sem leikmaður.

mbl.is