Vildi ekki fara með börnin í skólann

Luis Suárez upplifði sína erfiðustu tíma á ferlinum eftir 4:0-tap …
Luis Suárez upplifði sína erfiðustu tíma á ferlinum eftir 4:0-tap Barcelona gegn Liverpool í Meistaradeildinni í vor. AFP

Luis Suárez, framherji spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, átti erfitt með sig eftir 4:0-tap liðsins gegn Liverpool á Anfield í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leik liðanna á Spáni lauk með 3:0-sigri Barcelona og áttu flestir von á því að Barcelona færi þægilega áfram í úrslitaleikinn.

Liverpool átti hins vegar magnaða endurkomu á Anfield í seinni leiknum og fór að lokum alla leið í keppninni og vann 2:0-sigur gegn Tottenham í úrslitaleik á Metropolitano-vellinum í Madrid 1. júní. „Dagarnir eftir tapið á Anfield voru verstu tímar sem ég hef upplifað á mínum ferli, ásamt dögunum eftir HM 2014. Ég vildi einfaldlega hverfa úr þessum heimi. Ég vildi ekki fara með börnin mín í skólann einu sinni,“ sagði Suárez í samtali við úrúgvæska fjölmiðla.

„Það sáu allir að mér leið ekki vel og ég var satt besta að segja bara í slæmu ásigkomulagi. Við erum Barcelona en við náðum okkur engan vegin á strik í seinni leiknum. Við áttum slakar sendingar og gáfum þeim auðveld mörk. Við brotnuðum algjörlega við fyrsta markið þeirra og það var löng þögn í klefanum eftir tapið. Við vissum að við hefðum orðið sjálfum okkur og félaginu til skammar með frammistöðunni,“ sagði Suárez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert