Hættur sem þjálfari spænska landsliðsins

Luis Enrique er að glíma við persónuleg mál í fjölskyldunni.
Luis Enrique er að glíma við persónuleg mál í fjölskyldunni. AFP

Luis Enrique hefur látið af störfum sem þjálfari spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Hann óskaði eftir því að láta af störfum af persónulegum ástæðum vegna fjölskyldumála.

Enrique er 49 ára gamall og tók við landsliðinu í júlí á síðasta ári að loknu heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Hann var þar áður þjálfari Barcelona en hætti þar störfum sumarið 2017 eftir þriggja ára starf.

Spánn er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í undankeppni EM 2020. Roberto Moreno, sem var aðstoðarmaður Enrique með landsliðið, mun taka við sem landsliðsþjálfari. Hann hefur raunar stýrt liðinu í síðustu þremur leikjum þar sem Enrique var frá af persónulegum fjölskylduástæðum sem leiða nú jafnframt til starfsloka hans.

Spænska knattspyrnusambandið hefur óskað eftir því að Enrique fái frið frá fjölmiðlum til þess að vera með fjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert