Skref fram á við frá Chelsea

Maurizio Sarri.
Maurizio Sarri. AFP

Maurizio Sarri, sem tók við starfi knattspyrnustjóra Juventus fyrr í vikunni eftir að hafa stýrt Chelsea í eitt ár, segir að hann sé að taka skref fram á við á sínum ferli.

Sarri gerði góða hluti með Napoli á Ítalíu áður en hann fór til Englands á síðasta tímabili. Hann stýrði Chelsea meðal annars til sigurs í Evrópudeildinni, en er nú tekinn við margföldum Ítalíumeisturum Juventus. Hann var formlega kynntur til starfa í dag og tekur við af Massimiliano Allegri.

„Juventus er sterkasta lið Ítalíu og gaf mér tækifæri til þess að snúa aftur heim. Ég er mjög ánægður að vera kominn á þennan stað og þetta er skref fram á við eftir reynsluna hjá Chelsea,“ sagði Sarri, sem skrifaði undir þriggja ára samning við Juventus.

Hjá Chelsea var hann þekktur fyrir að vera í íþróttagallanum á hliðarlínunni og hann vonast til þess að forráðamenn Juventus neyði hann ekki í jakkafötin.

„Ég vil helst ekki þurfa að vera í jakkafötum og með bindi á vellinum. En það sem skiptir mestu máli er að ég verði ekki sendur nakinn fram,“ sagði Sarri í léttum tón.

mbl.is