Stór skipti í vændum hjá Barcelona og PSG?

Neymar er sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona þessa dagana.
Neymar er sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona þessa dagana. AFP

Neymar, dýrasti knattspyrnumaður heims, hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona að undanförnu. Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona, sumarið 2017, fyrir 200 milljónir punda en brassinn er sagður sjá eftir félagaskiptunum og vill nú snúa aftur til Spánar.

Barcelona er ekki að fara borga 200 milljónir punda fyrir Neymar en fjölmiðlar á Spáni halda því fram að Barcelona sé tilbúið að láta þrjá leikmenn fara til PSG í skiptum fyrir Neymar. Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Ousmane Dembélé, Ivan Rakitic og Samuel Umtiti.

Þá þyrfti Barcelona einnig að borga í kringum 100 milljónir evra á milli en Neymar fór til PSG á sínum tíma til þess að verða besti leikmaður heims og vinna Meistaradeildina. PSG hefur hins vegar fallið úr leik í keppninni undanfarin tvö ár í sextán liða úrslitum og þá er Neymar ekkert sérstaklega vinsæll í París. 

mbl.is