Svíþjóð áfram og mætir Þýskalandi

Hedvig Lindahl varði vítaspyrnu fyrir Svía og var vel fagnað.
Hedvig Lindahl varði vítaspyrnu fyrir Svía og var vel fagnað. AFP

Svíþjóð vann 1:0-sigur á Kanada í kvöld í 16-liða úrslitum HM kvenna í fótbolta í Frakklandi. Kanada klúðraði vítaspyrnu í seinni hálfleiknum.

Það hafði lítið verið um færi í leiknum þegar Stina Blackstenius skoraði það sem reyndist svo eina mark leiksins, á 55. mínútu, eftir frábæran undirbúning Kosovare Asllani. Eftir markið færðist mikið fjör í leikinn.

Kanada fékk vítaspyrnu á 69. mínútu þegar dæmd var hendi á Asllani, eftir að dómari leiksins hafði skoðað atvikið vel í sjónvarpi. Janine Beckie tók spyrnuna en Hedvig Lindahl varði frábærlega fyrir Svía.

Stina Blackstenius og Kosovare Asllani fagna sigurmarkinu gegn Kanada.
Stina Blackstenius og Kosovare Asllani fagna sigurmarkinu gegn Kanada. AFP

Svíþjóð virtist svo vera að fá vítaspyrnu um tíu mínútum fyrir leikslok en dómari hætti réttilega við að dæma hana vegna rangstöðu, en sáralitlu munaði. Asllani átti svo frábæra tilraun að marki Kanada eftir aukaspyrnu en skot hennar var varið af varnarmanni á marklínu.

Kanada sendi Stephanie Labbe markvörð fram í aukaspyrnu og hornspyrnu í lokin en sænska liðið fagnaði að lokum sigri og leikur því gegn Þjóðverjum í 8-liða úrslitunum, á laugardaginn í Rennes. Áður var ljóst að Noregur og England mætast á fimmtudag og Frakkland og Bandaríkin á föstudag. Á morgun lýkur 16-liða úrslitunum þegar Ítalía mætir Kína, og Holland mætir Japan. Sigurvegararnir úr þeim leikjum mætast í 8-liða úrslitunum á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert