Hvað gera lærisveinar Guðjóns á N-Írlandi?

Guðjón Þórðarson og aðstoðarmaður hans, Jens Martin Knudsen.
Guðjón Þórðarson og aðstoðarmaður hans, Jens Martin Knudsen. Ljósmynd/NSÍ

Strákarnir hans Guðjóns Þórðarsonar í færeyska liðinu NSÍ verða í eldlínunni í forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu í kvöld.

NSÍ sækir N-írska liðið Ballymeny United heim í fyrri leiknum í forkeppninni en lærisveinar Guðjóns tróna á toppi færeysku úrvalsdeildarinnar.

Guðjón þekkir vel til fótboltans á Bretlandseyjum eftir að hafa stýrt ensku liðunum Stoke City, Barnsley, Notts County og Crewe Alexandra.

Síðustu árin hefur NSÍ mætt liðum frá Bretlandseyjum í Evrópudeildinni. Liðið tapaði samanlagt fyrir enska liðinu Fulham 3:0, það tapaði 5:4 samanlagt fyrir írska liðinu Linfield og 12:5 samanlagt á móti skoska liðinu Hibernian.

Ballymeny United hafnaði í öðru sæti í n-írsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en nýtt tímabil í deildinni hefst 10. ágúst.

mbl.is