Úrslitaleikurinn á morgun?

María Þórisdóttir verður í eldlínunni með Noregi gegn Englandi á ...
María Þórisdóttir verður í eldlínunni með Noregi gegn Englandi á HM í kvöld. AFP

Þrátt fyrir að sjö Evrópuþjóðir séu eftir á HM kvenna í fótbolta er það ekki Evrópuþjóð sem þykir sigurstranglegust nú þegar 8-liða úrslitin eru að hefjast.

Veðbankar eru á því að ríkjandi heimsmeistarar Bandaríkjanna eigi enn mesta möguleika á titlinum, þrátt fyrir að Spánverjar hafi sýnt fram á það í 16-liða úrslitunum að bandaríska liðið er ekki neitt ofurlið.

Flestir virðast telja Bandaríkin og Frakkland sigustranglegust á mótinu en þau mætast í París annað kvöld. Sjálfsagt þykir einhverjum leitt að liðin mætist strax á þessu stigi mótsins, þrátt fyrir að bæði hafi unnið alla sína leiki hingað til, en það er ekkert við því að gera. Sigurliðið mætir annaðhvort Noregi eða Englandi í undanúrslitunum en keppni í 8-liða úrslitum hefst í kvöld með leik Noregs og Englands. Á laugardaginn lýkur 8-liða úrslitunum þegar Ítalía mætir Hollandi og Þýskaland mætir Svíþjóð.

María man vonbrigðin vel

England og Noregur mættust einnig á HM 2015, í 16-liða úrslitum, og þá hafði England betur, 2:1. Chelseakonurnar Maren Mjelde og María „okkar“ Þórisdóttir hafa staðið vaktina vel í vörn Noregs og María segir liðið hafa harma að hefna í kvöld:

„Ég var gríðarlega vonsvikin [eftir tapið á HM í Kanada 2015] og þetta situr enn í mér í dag. Ég var ung þarna en þetta var gríðarlega erfitt,“ sagði María við vef FIFA, og eftir vonbrigðin fyrir fjórum árum og á EM 2017 segir hún norska liðið mun betur í stakk búið til að vinna England nú.

„Stærsti munurinn er þessi mikla og sterka samheldni í okkar liði. Við höfum byggt upp mjög gott leikskipulag á síðustu tveimur árum og erum sterkari bæði innan og utan vallar en árið 2015. Leikstíllinn okkar leyfir okkur að gera ein og ein mistök, og gefur okkur sjálfstraust til þess að halda boltanum. Við erum ekkert að stressa okkur og senda bara langar sendingar fram,“ sagði María.

Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »