Sigurmark frá Andra

Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason. Ljósmynd/Kaiserslautern

Andri Rúnar Bjarnason tryggði í kvöld þýska knattspyrnuliðinu Kaiserslautern 1:0 sigur á enska liðinu Wimbledon í síðasta æfingaleiknum áður en keppnistímabilið hefst í Þýskalandi.

Hið fornfræga félag Kaiserslautern féll niður í C-deildina í fyrra og náði ekki að komast þaðan síðasta vetur. Það ætlar sér aftur upp á komandi tímabili og liður í því var að kaupa Andra Rúnar af Helsingborg í sumar en hann varð markakóngur sænsku B-deildarinnar með liðinu á síðasta ári, einu ári eftir að hafa orðið markakóngur íslensku úrvalsdeildarinnar með Grindavík.

Kaiserslautern spilar á heimavelli gegn Unterhaching í fyrsta deildaleiknum á næsta tímabili á laugardaginn um næstu helgi, 20. júlí.

mbl.is