Alsír Afríkumeistari í annað sinn

Baghdad Bounedjah fagnar sigurmarki sínu með Alsír í kvöld.
Baghdad Bounedjah fagnar sigurmarki sínu með Alsír í kvöld. AFP

Alsír fagnaði í kvöld sigri í Afríkumótinu í knattspyrnu eftir 1:0-sigur á Senegal í úrslitaleik mótsins í Egyptalandi.

Sigurmarkið kom strax á annarri mínútu en það skoraði Baghdad Bounedjah, leikmaður Al Sadd í Katar. Það reyndist eina marktilraun Alsír í leiknum gegn 11 frá Senegal, en það dugði til þess að vinna keppnina í annað sinn en síðast stóð liðið uppi sem sigurvegari árið 1990.

Senegal fékk vítaspyrnu í síðari hálfleik, en dómnum var snúið við eftir að atvikið var skoðað á myndbandsupptöku. Þetta var í annað sinn sem Senegal spilar til úrslita, en liðið hefur aldrei orðið Afríkumeistari. Liðið mætti Kamerún í úrslitaleik 2002 sem tapaðist og þá hefur liðið þrívegis tapað bronsleiknum, árin 1965, 1990 og 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert