Ronaldo hafði ekki áhrif á De Ligt

Matthijs De Ligt í baráttunni við Cristiano Ronaldo í úrslitum …
Matthijs De Ligt í baráttunni við Cristiano Ronaldo í úrslitum Þjóðadeildarinnar í vor. AFP

Hollenski varnarmaðurinn Matthijs de Ligt skrifaði í gær undir fimm ára samning við ítalska knattspyrnufélagið Juventus. De Ligt er aðeins 19 ára gamall en hann kemur til félagsins frá Ajax en varnarmaðurinn hefur verið eftirsóttasti bitinn á leikmannamarkaðnum í sumar.

Juventus þarf að borga 68 milljónir punda fyrir varnarmanninn en De Ligt segir að Cristiano Ronaldo hafi ekki átt neinn þátt í því að hann valdi Juventus. „Ég tók þá ákvörðun eftir úrslitaleik Þjóðadeildarinnar að ég vildi fara til Juventus,“ sagði De Ligt við ítalska blaðamenn.

„Auðvitað var frábært að fá hrós og hvatningu frá leikmanni eins og Cristiano Ronaldo en það gerði ekki útslagið þegar kom að því að velja áfangastað þannig að Ronaldo hafði ekki áhrif á val mitt. Ég kom hingað því ég tel mig geta bætt mig hérna enda er lögð mikil áhersla á varnarleikinn á Ítalíu,“ sagði De Ligt enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert