Bayern verður að opna veskið

Robert Lewandowski hvetur Bayern München til þess að rífa upp …
Robert Lewandowski hvetur Bayern München til þess að rífa upp veskið og kaupa öfluga leikmenn í sumar. AFP

Robert Lewandowski, framherji þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, segir að það verði erfitt fyrir þýska liðið að vinna Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð ef liðið styrkir sig ekki í sumar.

Bæjarar keyptu þá Lucas Hernandez og Benjamin Pavard í sumar fyrir samtals 115 milljónir evra en þeir eru báðir varnarmenn.

Þeir Franck Ribéry, Arjen Robben, Mats Hummels, Rafinha og James Rodríguez hafa allir yfirgefið félagið í sumar og Lewandowski segir að forráðamenn félagsins verði að rífa upp veskið. „Við þurfum að bíða og sjá hvað gerist í sumar en það verður erfitt að vinna Meistaradeildina án nýrra leikmanna.“

„Til þess að keppa á öllum vígstöðvum þurfum við sterkan hóp og hæfileikaríka leikmenn. Félagið hefur ekki keypt stórt nafn í tvö ár og við þurfum að styrkja okkur. Eins og staðan er í dag er hópurinn ekki stór og við þurfum líka fleiri leikmenn til þess að rífa upp gæðin á æfingum,“ sagði Lewandowski í samtali við þýska fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert