Bayern verður að opna veskið

Robert Lewandowski hvetur Bayern München til þess að rífa upp ...
Robert Lewandowski hvetur Bayern München til þess að rífa upp veskið og kaupa öfluga leikmenn í sumar. AFP

Robert Lewandowski, framherji þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, segir að það verði erfitt fyrir þýska liðið að vinna Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð ef liðið styrkir sig ekki í sumar.

Bæjarar keyptu þá Lucas Hernandez og Benjamin Pavard í sumar fyrir samtals 115 milljónir evra en þeir eru báðir varnarmenn.

Þeir Franck Ribéry, Arjen Robben, Mats Hummels, Rafinha og James Rodríguez hafa allir yfirgefið félagið í sumar og Lewandowski segir að forráðamenn félagsins verði að rífa upp veskið. „Við þurfum að bíða og sjá hvað gerist í sumar en það verður erfitt að vinna Meistaradeildina án nýrra leikmanna.“

„Til þess að keppa á öllum vígstöðvum þurfum við sterkan hóp og hæfileikaríka leikmenn. Félagið hefur ekki keypt stórt nafn í tvö ár og við þurfum að styrkja okkur. Eins og staðan er í dag er hópurinn ekki stór og við þurfum líka fleiri leikmenn til þess að rífa upp gæðin á æfingum,“ sagði Lewandowski í samtali við þýska fjölmiðla.

mbl.is