Nítján ára á hraðri uppleið

Kolbeinn Birgir Finnsson ásamt Mike Tullberg, þjálfari U23 ára liðs …
Kolbeinn Birgir Finnsson ásamt Mike Tullberg, þjálfari U23 ára liðs félagsins. Ljósmynd/Dortmund

Hinn 19 ára gamli Kolbeinn Birgir Finnsson skrifaði undir þriggja ára samning við þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund á dögunum. Kolbeinn kemur til félagsins frá enska B-deildarliðinu Brentford þar sem hann hefur spilað frá 2018 en Dortmund er eitt sögufrægasta lið Þýskalands. Átta sinnum hefur liðið orðið Þýskalandsmeistari, síðast árið 2012, og þá hefur félagið fjórum sinnum orðið þýskur bikarmeistari. Þá varð liðið Evrópumeistari 1997 en liðið lék til úrslita í Meistaradeildinni vorið 2013 þar sem Dortmund tapaði 2:1 fyrir Bayern München í úrslitaleik á Wembley. Kolbeinn er þriðji Íslendingurinn sem semur við félagið en Atli Eðvaldsson lék með liðinu á árunum 1980 til ársins 1981 og þá lék Magnús Bergs með því á árunum 1980 til 1982.

„Ég er mjög sáttur með þessi félagaskipti. Ég heyrði fyrst af áhuga Dortmund fyrir nokkrum vikum en ef ég á að vera alveg hreinskilinn átti ég ekki von á að þetta myndi ganga svona langt. Ég var með samning við Brentford og mér leið vel þar en svo kom formlegt tilboð frá Dortmund í síðustu viku og þá þurfti ég að ákveða mig. Þetta var ekkert sérstaklega erfið ákvörðun og ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um. Dortmund er risastórt félag með mikla sögu og þetta er fyrst og fremst frábært tækifæri fyrir mig sem knattspyrnumann til þess að halda áfram að þróa minn leik og bæta mig.“

Alvörukeppni í stórri deild

Kolbeinn lék með varaliði Brentford á síðustu leiktíð og mun spila með U23 ára liði Dortmund í þýsku D-deildinni á komandi leiktíð. Hann er spenntur fyrir nýrri áskorun og telur að þýski boltinn muni henta sér vel.

„Það er spilaður ákveðinn fótbolti í Brentford en þetta er aðeins öðruvísi í Þýskalandi. Dortmund er stærri klúbbur en Brentford fyrir það fyrsta og ég held að fótboltinn sem er spilaður í Þýskalandi muni henta mér mjög vel. Þeir fíla leikmenn sem berjast mikið og gefa sig alla í verkefnið og svo skemmir það auðvitað ekki fyrir að geta eitthvað í fótbolta líka. Mike Tullberg, þjálfari U23 ára liðs Dortmund, hafði samband við mig og seldi mér það í raun bara á nokkrum mínútum að skipta yfir til félagsins. Ég vissi það fyrir fram að aðstæðurnar hjá klúbbnum væru fyrsta flokks og það skemmdi auðvitað ekki fyrir. Það eru fjórir dagar síðan ég kom til Þýskalands og þetta lítur mjög vel út. Það eru aðeins meiri gæði hérna og leikmennirnir eru betri, heilt yfir, en hjá Brentford. Fjórða deildin í Þýskalandi er frekar stór deild og þetta er alvörudeildarkeppni ef svo má segja. Það er fullt af fólki sem mætir á völlinn hérna úti þannig að ég er mjög spenntur að byrja spila.“

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »