Gamall fyrirliði segir fyrirliðanum að hætta í landsliðinu

Mërgim Mavraj er fyrirliði Albaníu.
Mërgim Mavraj er fyrirliði Albaníu. AFP

Fyrirliði albanska landsliðsins í knattspyrnu, Mërgim Mavraj, hefur verið gagnrýndur talsvert fyrir frammistöðu sína á laugardagskvöldið þegar Albanar töpuðu 4:1 fyrir Frökkum í undankeppni EM á Stade de France. 

Fyrrverandi fyrirliði Albaníu, Rudi Vata, hefur skorað á Mavraj að draga sig út úr albanska landsliðinu. Vata segir að Mavraj hafi verið í vandræðum undanfarin tvö ár vegna þess hve lítið hann hafi spilað með félagsliðum sínum og það sé tímasóun að vera með hann í landsliðinu í dag.

Mavraj svaraði Vata á samfélagsmiðlum og kvaðst ekki þekkja hann. „Ég þekki bara einn Vata og hann heitir Fatmir Vata,“ skrifaði Mavraj sem fékk lægstu einkunn albönsku leikmannanna hjá France Football, þrjá, fyrir leikinn gegn Frökkum og þá umsögn að hann hefði verið klaufalegur í varnarleik sínum og í tómum vandræðum allan leikinn.

Rudi Vata sagði í viðtali við Panorama Sport í Albaníu að það væri ekki sitt vandamál að Mavraj skyldi ekki þekkja sögu albansks fótbolta, enda væri hann „útlagi“. Mavraj, sem er 33 ára gamall, er fæddur og uppalinn í Þýskalandi og hefur leikið þar nær allan ferilinn, að undanskildum nokkrum mánuðum með albönsku liði.

Mërgim Mavraj í baráttu við Lucas Hernández í leik Frakklands …
Mërgim Mavraj í baráttu við Lucas Hernández í leik Frakklands og Albaníu á laugardagskvöldið. AFP

Hann á ekkert erindi í landsliðið í dag

„Ég hef alltaf þjónað mínu landi, Albaníu, og allir höfum við rétt á að segja skoðanir okkar. Ég er ekki að reyna að móðga einn eða neinn. Ég skil vel þá erfiðleika sem Mavraj er að ganga í gegnum því hann hefur nánast ekkert spilað í tvö ár. Ég studdi hann sem leikmann þegar hann var upp á sitt besta en nú er staðan þannig að hann á ekkert erindi í landsliðið. Þetta segi ég vegna þess að landsliðið okkar er í krísu og það þarf að yngja það upp. Einn þeirra sem eru algjörlega búnir er Mavraj, það er augljóst,“ sagði Vata sem sjálfur lék 59 landsleiki á árunum 1990 til 2001 og var fyrirliði landsliðsins í fjögur ár.

Hann flúði frá Albaníu eftir leik með 21-árs landsliðinu í Frakklandi árið 1991, einmitt þegar það spilaði tvívegis gegn Íslandi, og spilaði m.a. með Celtic í Skotlandi í mörg ár en sneri heim til að spila með Tirana undir lok ferilsins.

Fáfræði ef hann þekkir ekki sögu Albana

„Ef hann segist bara þekkja Fatmir Vata er það hans mál. Mér er alveg sama hvort hann þekkir mig eða ekki. En hann á að þekkja mig því ég er Albani og var fyrirliði landsliðsins löngu á undan honum, líka á erfiðum tíma í sögu liðsins okkar. Ég fór og lék erlendis, fullur af föðurlandsást og færði fórnir til að standa mig vel í Evrópu. Það stríð vann ég með albönsku vegabréfi en ekki júgóslavnesku. Ég flúði til Frakklands með albanskt vegabréf og það var alltaf í forgangi hjá mér að spila fyrir mína þjóð. Ef „útlaginn“ þekkir ekki sögu Albana sem hafa náð langt, þá er það ekki mitt vandamál, en það er ekkert annað en fáfræði,“ sagði Rudi Vata við Panorama Sport.

mbl.is