Mikael skoraði fyrir óstöðvandi lið Midtjylland

Mikael Anderson
Mikael Anderson Ljósmynd/Midtjylland

Midtjylland vann enn einn leikinn í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en að þessu sinni lagði liðið Lyngby að velli að heiman, 3:0. Midtjylland er á toppi deildarinnar með 25 stig eftir níu umferðir.

Mikael Anderson var í byrjunarliði gestanna í dag og skoraði annað mark liðsins á 54. mínútu. Hann var svo tekinn af velli tíu mínútum síðar en þetta var hans annað mark á tímabilinu. Hann hefur verið í byrjunarliðinu fjórum sinnum og komið inn á í fjórum öðrum leikjum. Frederik Schram var varamarkvörður Lyngby í leiknum.

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á af bekknum í 3:0-sigri AGF á AaB en þetta var fjórði sigur Jóns og félaga í röð. Jón kom inn á 73. mínútu en AGF er í þriðja sæti með 14 stig. Þetta var í fimmta sinn í röð sem liðið heldur markinu sínu hreinu og er það félagsmet í efstu deild. Deildarmetið á Nordsjælland sem hélt hreinu sex leiki í röð. Lyngby er í 12. sætinu með níu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert